Um FSE, Ástæður, Tilgang og Markmið.
- stjornfse
- Nov 2, 2020
- 1 min read

Tilgangur félagsins er að vera vettvangur smáfyrirtækjaeigenda og einyrkja til að ná fram betri réttindum en nú er. Flestir smáfyrirtækjaeigendur eru að vinna við sín hugðarefni og kjósa að láta markaðinn dæma sig af verkum sínum. Við viljum vera sjálfs okkar herrar en hvorki lúta ofstjórn og ofurkröfum frá stórkapítali, ríkisvaldi né verkalýðshreyfingu.
Víða um heim er inngróið í samfélögin gleði og þakklæti yfir því að fólk taki á sig langan vinnudag, mikla áhættu og erfiði til að leggja fram til samfélagsins vinnu og menningarlegt framlag sem aldrei hefði verið unnin af ríki eða stórfyrirtækjum. En annars staðar er lítill skilningur á þessu, svosem á Íslandi. Þar er smáfyrirtækjaeigendum og einyrkjum gert erfitt fyrir með óraunhæfum kröfum, frá ríki og verkalýðsfélögum. Tveggja og þriggja manna fyrirtækjum og einyrkjum eru uppálagðar sömu kröfur og þúsund manna fyrirtækjum. Smáfyrirtækjum og einyrkjum er gert að greiða stórar upphæðir í lífeyrissjóði, sem síðan eru notaðar til að fjármagna samkeppnisfyrirtæki á markaðnum.
Skattaleg meðferð í sumum löndum, t.d. á Bretlandi, er mildari á hendur smáfyrirtækjaeigendum og þar er viðurkennd áhætta og erfiði sem fylgir slíkum rekstri. Kröfur um bókhald og skattskil eru þar með gerólíkum hætti miðað við hvað hér gengur og gerist. Það þarf að gera yfirvöldum grein fyrir því að smáfyrirtæki er ekki einsog stórfyrirtæki, þótt bæði séu fyrirtæki, ekki frekar en heimilisköttur er einsog ljón, þótt bæði séu kettir. Til að ná árangri í baráttu sem þessari, þarf samtök, þeirra sem eiga sameiginlega hagsmuni. Það er ekki eðlilegt að SA semji fyrir okkur um alla hluti og það er ekki eðlilegt að lög um fyriræki séu eins fyrir alla, burtséð frá stærð.

Comments